Ferill 678. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1201  —  678. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um greiðslu viðbótarlauna til starfsmanna ríkisins.


    Heimild forstöðumanna til greiðslu viðbótarlauna byggist á 2. mgr. 9. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvarðanir forstöðumanna um greiðslu viðbótarlauna skulu fara eftir reglum sem fjármála- og efnahagsráðherra setur. Núgildandi reglur nr. 1432/2022 um greiðslu viðbótarlauna til almennra starfsmanna ríkisins voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda 20. desember 2022. Áður giltu reglur undirritaðar af ráðherra 7. mars 2007. Til eru ákvæði í kjarasamningum og stofnanasamningum um viðbótarlaun og skal forstöðumaður fylgja umræddum reglum nýti hann heimild til greiðslu viðbótarlauna samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og/eða stofnanasamninga.
    Í launakerfi ríkisins er gerður greinarmunur á greiðslum viðbótarlauna eftir því hvort þær byggjast á almennum ákvæðum framangreindra laga og reglna og eru þá heimfærðar á launategundina „viðbótarlaun“, eða hvort þær byggjast á heimildum í kjarasamningum/stofnanasamningum og færast þá undir launategundina „viðbótarlaun á grundvelli stofnanasamninga“.
    Í því samhengi er bent á að greiðslur Skattsins sem til umræðu hafa verið fyrr í ár og vísað er til í 5. tölul. fyrirspurnarinnar byggjast á bókun 2 í kjarasamningi við BHM frá 28. maí 2014.

     1.      Hvaða stofnanir og stjórnvöld sem heyra undir ráðherra nota hvatakerfi viðbótarlauna fyrir starfsmenn, sbr. reglur nr. 1432/2022?
    Engin stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra notar viðbótarlaun í formi skipulegs hvatakerfis. Í þeim tilvikum sem launategundin „viðbótarlaun“ er notuð hefur verið umbunað fyrir óvenjulegt og tímabundið álag í starfi. Þær stofnanir sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðherra og hafa notað launategundina viðbótarlaun eru fjármála- og efnahagsráðuneytið, Fjársýsla ríkisins og Framkvæmdasýsla ríkisins. Þá greiddi Skatturinn viðbótarlaun á grundvelli stofnanasamninga (sbr. bókun 2 í kjarasamningi BHM við ríkið).

     2.      Hversu mikið hefur ríkissjóður greitt í viðbótarlaun á síðustu fjórum árum og til hversu margra starfsmanna?
    Eftirfarandi mynd sýnir greiðslur „viðbótarlauna“ annars vegar og greiðslur „viðbótarlauna á grundvelli stofnanasamninga“ hins vegar fyrir ríkið í heild. Heildarupphæð á ári í milljónum króna og fjölda kennitalna sl. fjögur ár.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Heimild: Launakerfi Fjársýslu, framsetning Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR).

    Í fylgiskjali er yfirlit yfir fjárhæðir og fjölda kennitalna sem myndin sýnir og einnig sýnd hlutdeild Landspítala þar af.
    Hækkun viðbótarlauna á grundvelli stofnanasamninga úr um 400 millj. kr. árið 2020 í nærri 2,5 milljarða kr. árið 2022 og fjölgun kennitalna á sama tíma úr tæplega 2.600 í um 5.200 talsins má að miklu leyti rekja til mönnunarvanda og álags sem skapaðist á Landspítalanum í COVID-19-faraldrinum og í kjölfar hans. Voru fjárveitingar afgreiddar í fjárlögum sem og fjáraukalögum vegna þessa og tekin ákvörðun um að greiða umræddar fjárhæðir sem viðbótarlaun á grundvelli stofnanasamninga.

     3.      Er eitthvert hámark viðbótarlauna sem starfsmenn geta hlotið á grundvelli reglna um viðbótarlaun?
    Hvorki er tiltekið hámark viðbótarlauna í reglum nr. 1432/2022 né í bókun 2 við kjarasamning BHM eða stofnanasamningum þar um. Í eldri reglum og kjarasamningum var mælt fyrir um 30.000 kr. hámark sem var afnumið með nýjum reglum og kjarasamningum.
    Þó hafa greiðslur til starfsfólks hjá Skattinum, sem til umræðu hafa verið, takmarkast af 2% af launasummu þess starfsfólks sem tilheyrir stéttarfélögum BHM og fékk fjórðungur þeirra greiðslur í hvert og eitt skipti. Hafa slíkar greiðslur verið framkvæmdar tvisvar sinnum á ári. Námu greiðslurnar hjá Skattinum 500.000 kr. og til þess starfsfólks sem þær hlutu í hvert og eitt skipti, þ.e. allir fengu sömu fjárhæð greidda.

     4.      Hver er mesta upphæð sem hefur verið greidd til starfsmanns á starfsári sem telst til viðbótarlauna?
    Samkvæmt upplýsingum úr launakerfi ríkisins nam hæsta greiðsla til starfsmanns sem telst til viðbótarlauna samtals 9.743.550 kr. á launategundinni „viðbótarlaun á grundvelli stofnanasamninga“ og var greidd árið 2022 á Landspítalanum.

     5.      Í fréttatilkynningu Skattsins hinn 12. febrúar sl. kom fram að viðbótarlaunakerfi starfsmanna stofnunarinnar væri afnumið. Hvernig munu umræddar breytingar hafa áhrif á starfskjör starfsmanna Skattsins?
    Viðbótarlaunagreiðslur Skattsins byggðust á ákvæðum í kjarasamningum um viðbótarlaunakerfi samkvæmt bókun 2 í kjarasamningi við BHM frá árinu 2014. Samið var um að 2% af launasummu starfsmanna í stéttarfélögum BHM væru nýtt til að greiða viðbótarlaun m.a. vegna tímabundinna viðbótarverkefna, sveigjanleika í vinnufyrirkomulagi, frammistöðu eða álags. Gátu 25% starfsmanna fengið viðbótarlaun á hverju sex mánaða matstímabili og fengu allir sömu fjárhæð. Breyting var gerð á stofnanasamningum 9. febrúar sl. Eftir breytinguna er í stað viðbótarlauna bætt inn í samninginn tveimur nýjum starfsaldurshækkunum, annars vegar bætist við launaþrep eftir þrjú ár í starfi og hins vegar launaþrep eftir fimm ár í starfi.



Fylgiskjal.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.